Vátryggingafélag Íslands hagnaðist um tæpan 2,1 milljarð, sem er 836 milljóna króna aukning milli ára. Þetta kemur fram í ársuppgjöri félagsins sem var birt í dag. Hagnaður á hlut nam þá um 0,87 krónum, en hann var 0,5 krónur árið á undan.

Tekjur félagsins fyrir tjón, skatta og önnur gjöld nam um 20,2 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um tæpa 3 milljarða milli ára.  Iðgjöld ársins jukust þá um rétt tæpar 500 milljónir. Samsett hlutfall félagsins var 101,5%, en markmið ársins 2015 var að halda því undir 100%. Þó er það bæting frá árinu á undan, en þá var það 104,5%.

Eignir félagsins námu þá 44,8 milljörðum króna, en þar af er eigið fé 17,5 milljarðar króna og skuldir 27,3 milljarðar króna. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 39%.

Helst til er þessi fyrrnefnda hagnaðaraukning til komin af því að fjárfestingar félagsins gengu vonum framar á árinu, en ávöxtun fjáreigna nam 12,2% á árinu miðað við 7,1% árið á undan. Úrvalsvísitala Nasdaq Iceland jókst um einhver 43% á árinu 2015.

Arðgreiðslutillaga stjórnar VÍS á árinu 2016 gerir ráð fyrir því að arður verði greiddur sem svarar 2,17 krónum á hlut, en samtals væri sá arður um það bil 5 milljarðar króna.