Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hagnaðist um 1.419 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Það er töluvert betri niðurstaða en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 451 milljón króna. Forstjóri VÍS segir afkomuna umfram væntingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Fjárfestingatekjur námu 2.065 milljónum króna samanborið við 663 milljónir króna fyrir sama tímabil í fyrra. Iðgjöld félagsins námu núna 8.107 milljónum króna en voru 7.781 milljón króna í fyrra.

Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 280 milljónir króna, en á sama tíma í fyrra nam framlegðin 94 milljónum króna. Kostnaðarhlutfall var 21,9% samanborið við 22,4% á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall var 104,5% en var 99,9% í fyrra.

Útgreiddur arður nam 2,5 milljörðum

Heildareignir í lok tímabilsins námu 47.472 milljónum króna í lok tímabilsins og jukust um 106 milljónir króna frá áramótum Fjárfestingareignir félagsins námu nú 33.146 milljónum króna, en í árslok námu þær 34.658 milljónum. Eigið fé félagsins var 14.417 milljónir króna samanborið við 15.956 milljónir króna í árslok. Eiginfjárhlutfall var 30,4% í lok tímabils og arðsemi eigin fjár var 18,7% á tímabilinu á ársgrunni.

Félagið greiddi hluthöfum sínum arð að fjárhæð 2.488 milljónir króna í aprílmánuði. Þá keypti félagið eigin hlutabréf fyrir 470 milljónir króna á fyrri hluta ársins og átti sem nam 2,3% af heildarhlutafé þess þann 30. júní sl.

Afkoman umfram væntingar

„Afkoma félagsins á fyrri helmingi ársins var góð og umfram væntingar.  Hagnaður af rekstri félagsins var 1.419 m.kr. eða tæpum 1.000 m.kr umfram afkomu á sama tímabili 2014.  Aukinn hagnaður skýrist fyrst og fremst af góðri ávöxtun af fjárfestingaeignum félagsins, en ávöxtunin var 2,7% á öðrum fjórðungi og 6,05% á fyrri helmingi ársins,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS um uppgjörið.

Hún segir hins vegar að afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi hafi verið lakari en reiknað var með og var samsett hlutfall 104,5% á tímabilinu.

„Afkoman skýrist af auknum fjölda tjóna það sem af er ári en óveðrið 14. mars hafði umtalsverð áhrif á félagið og telur um 3,7% til hækkunar á samsettu hlutfalli á árshelmingnum. Tjónatíðni hefur aukist talsvert og á það sérstaklega við í ökutækjatryggingum auk þess sem félaginu var á öðrum fjórðungi tilkynnt um stórt tjón í erlendri starfsemi þess.  Hins vegar er ánægjulegt að sjá góðan vöxt í iðgjöldum en bókfærð iðgjöld voru 11,4% hærri á öðrum fjórðungi en á sama fjórðungi í fyrra.“