Hagnaður tryggingafélagsins VÍS nam 948,8 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar nam hagnaður félagsins 752,2 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 2.043 milljónum króna samanborið við 1.746 milljónir á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Fram kemur í uppgjöri VÍS að iðgjöld námu 12.029 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Þau námu 12.128 milljónum króna á sama tíma í fyrra. Þar af námu iðgjöldin á þriðja ársfjórðungi 4.058 milljónum króna. Þau voru 4.211 milljónir á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Þá nam framlegð af vátryggingarekstri 461 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 400 milljónir á sama tíma í fyrra. Samsett hlutfall var 97,1% á tímabilinu janúar til september samanborið við 97,4% fyrir sama tímabil í fyrra. Fjármunatekjur námu 2.457 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins borið saman við 2.362 milljónir í fyrra.

Heildareignir í lok september námu 47.541 milljónum króna miðað við 43.452 um síðustu áramót. Eigið fé félagsins nam 16.513 milljónum króna í lok september. Það var 14.470 milljónir króna í lok síðasta árs.