*

laugardagur, 18. janúar 2020
Innlent 11. apríl 2018 09:25

Hagnaður VÍS verður þrefalt hærri

VÍS sendir frá sér afkomuviðvörun því það stefnir í að félagið hafi hagnast um 930 milljónir á fyrsta ársfjórðungi.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vátryggingafélag Íslands hefur sent frá sér afkomuviðvörun vegna þess að ávöxtun eigna reyndist 350 milljónum hærri en vænst var og hagnaður af rekstri 300 milljónum hærri.

Sendi félagið frá sér afkomuviðvörun í gærkvöldi því drög að árshlutauppgjöri fyrsta ársfjórðungs sýna að vænt afkoma félagsins er hagstæðari en afkomuspá gerði ráð fyrir um sem nemur 650 milljónum króna. Er heildarhagnaður ársfjórðungsins því 930 milljónir króna í stað 276 milljóna, sem gerir um 237% meiri hagnaður en væntingar voru um.

Í fyrstu tilkynningu var upphæðin sögð 750 milljónir en stuttu seinna var hún leiðrétt niður í 650 milljónir, en félagið tilkynnir  sérstaklega um frávikið því það er meira en 10% af væntum hagnaði ársins fyrir skatta.

Gert ráð fyrir tæplega 300 milljóna hagnaði

Væntur hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi fyrir skatta er um 930 milljónir króna en afkomuspá félagsins gerði ráð fyrir hagnaði upp á 276 milljónir króna á sama tímabili. Væntur hagnaður er því um 650 milljónum krónum hærri en afkomuspáin hafði gert ráð fyrir.

Ástæðan fyrir þessu er að ávöxtun skráðra fjárfestingaeigna félagsins reyndist hagstæðari um sem nemur 350 milljónum króna umfram afkomuspá fyrir fjórðunginn og þá reyndist afkoma af vátryggingarekstri einnig umfram væntingar um sem nemur 300 milljónum króna fyrir sama tímabil.

Góður árangur af vátryggingarekstri á fyrsta ársfjórðungi gerir það jafnframt að verkum að ekki gerist þörf á að uppfæra spá félagsins um samsett hlutfall fyrir árið þrátt fyrir tjón sem félagið ber vegna brunans sem varð í Miðhrauni 4 í síðustu viku.
Endurskoðuð áætlun félagsins gerir nú ráð fyrir að hagnaður ársins 2018 fyrir skatta verði 3.412 milljónir króna í stað 3.108 milljónir króna.

Stikkorð: VÍS hagnaður væntingar