*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Innlent 12. janúar 2021 22:15

Hagnaður VÍS umfram væntingar

Hagnaður VÍS er mun meiri en búist var við fyrir mánuði vegna mikillar ávöxtunar í desember. Afkoman er þó verri en síðustu ár.

Ritstjórn
Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.
Eyþór Árnason

Hagnaður VÍS árið 2020 nam 1,6 milljörðum króna fyrir skatta samkvæmt drögum að uppgjöri félagsins að því er fram kemur í afkomutilkynningu sem félagið sendi út í kvöld. Afkoman er mun betri en félagið átti von í desember, en þó lakari en afkoma áranna þar á undan og verri en upphafleg afkomuspá fyrir árið.

Í afkomutilkynningu sem félagið sendi út 17. desember kom fram að félagið gerði ráð fyrir 1,15 milljarða króna hagnaði fyrir skatta árið 2020. Í fyrri afkomuspá, sem var frá 22. október, var búist við 390 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á árinu. Í upphaflegri afkomuspá fyrir árið frá 31. janúar 2020 var gert ráð fyrir 2,2 milljarða króna hagnaði fyrir skatt á árinu. Sú spá var hins vegar felld úr gildi 13. mars vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldursins.

Til samanburðar nam hagnaður félagsins fyrir skatta um 2,9 milljörðum króna árið 2019 og 2,4 milljörðum króna árið 2018.

Ástæðan fyrir betri afkomu árið 2020 en gert var ráð fyrir, er sögð vera hærri ávöxtun fjáreigna í desember. Afkoma af tryggingarekstrinum er lakari en búist var við vegna þyngri tjóna á tímabilinu sem og útreiknings á tjónaskuld. Tjónaskuldin hefur samanlagt verið hækkuð um tæpa þrjá milljarða á árinu 2020. Það er sagt valda því að samsett hlutfall ársins hækkar og hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins.

Stikkorð: VÍS Helgi Bjarnason