Fjarskiptafyrirtækið Vodafone hagnaðist um 352 milljónir króna á á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 206 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Vodafone, að rekstrarhagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði (EBITDA) hafi numið 2,2 milljörðum króna og var það 19% hækkun frá sama tíma í fyrra. Framlegð jókst á tímabilinu og nam 44%. Þá námu vaxtaberandi skuldir 6.778 milljónum króna í lok september sem 1,9 milljarða lækkun frá áramótum. Tekið er fram í uppgjörinu að Vodafone hafi tekið 9,2 milljarða króna lán á fyrstu níu mánuðum ársins og greitt upp rúmlega 11,4 milljarða lán.

Eiginfjárhlutfall Vodafone nam 41,7% í lok tímabilsins.

„Rekstrarniðurstöður fyrstu níu mánaða ársins eru góðar. Þær eru umtalsvert betri en á sama tímabil í fyrra og árangurinn er umfram okkar eigin áætlanir á tímabilinu. Það eru vissulega gleðifréttir fyrir okkar starfsfólk, sem hefur lagt sig fram við að ná árangri í daglegum rekstri á sama tíma og mikil vinna hefur verið unnin vegna fyrirhugaðrar skráningar félagsins á hlutabréfamarkaðinn.  Þessar niðurstöður eru gott veganesti inn í framtíðina," er haft eftir Ómari Svavarssyni, forstjóra Vodafone, í tilkynningu.