Hagnaður Vodafone jókst um 192 prósent á þriðja fjórðungi miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaðurinn nam 415 milljónum króna á þriðja fjórðungi í ár. Rekstrarhagnaður, eða EBITDA nam 990 milljónum króna. Í tilkynningu segir að hann hafi aldrei verið meiri á einum fjórðungi. Handbært fé í lok tímabilsins var 1.300 milljónir króna og hefur aldrei verið hærra.

„Þriðji ársfjórðungur ársins 2013 var sérlega góður í rekstri Vodafone. Allar helstu kennitölur rekstrarins eru jákvæðar, hvort sem litið er til tekna, kostnaðar, framlegðarhlutfalls, EBITDA, fjármagnsliða eða hagnaðar. EBITDA hagnaður hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi og hagnaðurinn nærri þrefaldast frá sama tímabili í fyrra. Við erum hæstánægð með þennan árangur, sem er afrakstur markvissrar vinnu starfsfólks Vodafone síðustu misseri,“ segir Ómar Svavarsson forstjóri í tilkynningu frá félaginu.