Vodafone hagnaðist um 198 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Hagnaðurinn dróst saman milli ára um 38 milljónir króna, en hann var 236 milljónir á sama tímabili árinu áður. Þetta kemur fram í ársfjórðungsreikningi fyrirtækisins sem gefinn var út í dag.

Heildarafkoma fyrirtækisins var þó 194 milljónir króna, og því er um að kenna þýðingarmuni vegna starfsemi erlends dótturfélags, sem dregur fjórar milljónir af hagnaði íslensku samstæðunnar á tímabilinu.

Heildartekjur fyrirtækisins á fjórðungnum jukust um 44 milljónir króna milli ára. Þær námu þá 3,2 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður dróst hins vegar saman milli ára á sama tímabili, eða um 71 milljón króna.

Aukinn rekstrarkostnaður auk nokkurrar hækkunar kostnaðarverðs seldra vara og þjónustu olli því þá að þótt seldum vörur og þjónusta hefði fjölgað milli ára varð raunverulegur hagnaður félagsins minni milli ára. Hagnaður á hvern hlut fyrirtækisins nam þá 0,7 krónum.

Eignir félagsins námu samtals 15,6 milljörðum króna. Þar af var eigið fé 6,67 milljarðar króna og skuldir tæpir 9 milljarðar króna - þar af 6,5 milljarðar til langs tíma og 2,4 til skamms tíma.

Skuldir jukust um 2,6 milljarða á ársfjórðungnum, en helst voru skuldirnar sem bættust við vaxtaberandi langtímaskuldir. Þær jukust frá áramótum úr því að vera 4 milljarðar í að vera nú 6,4 milljarðar. Skammtímaskuldir jukust um 168 milljónir, að mestu í formi viðskiptaskulda.

Veltufé frá rekstri fyrir vexti og tekjuskatt dróst þá saman um 51 milljón milli ára. Handbært fé frá rekstri nam þá 573 milljónum króna og jókst um 34 milljónir króna.

Handbært fé í lok tímabilsins nam þá 559 milljónum króna og var 600 á sama tíma árið áður. Raunar var breyting handbærs fjár meiri nú en árið áður - 140 milljónir í ár og 83 í fyrra - en í ársbyrjun 2015 nam upphæð handbærs fjár 528 milljónum en 420 milljónum í ársbyrjun 2016.