Hagnaður af rekstri Vodafone á Íslandi og í Færeyjum nam 274 milljónum króna á síðasta ári. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 2,3 milljarðar króna, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Tekjur námu 12,6 milljörðum á síðasta ári.

„Síðasta ár einkenndist af miklum breytingum hjá Vodafone á Íslandi. Nær öllum þjónustuleiðum á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði var breytt, vinnulag við þjónustu tók miklum framförum, uppbygging á fjarskiptaneti fyrirtækisins hélt áfram og viðskiptavinum fjölgaði um nær 7%. Horfur eru góðar í rekstrinum fyrir árið 2011. Starfsmenn eru nú hátt í 400 og fyrirtækið stefnir á að auka markaðshlutdeild sína á árinu,“ segir í tilkynningu.

Þá kemur fram að áreiðanleikakönnun sem gerð var af hálfu Framtakssjóðsins hafi sýnt sterka stöðu félagsins. „Á nýloknum aðalfundi Eignarhaldsfélagsins Fjarskipta hf., sem á og rekur Vodafone á Íslandi og í Færeyjum, kom fram að þrátt fyrir harða samkeppni og minnkandi kaupmátt neytenda hafi reksturinn gengið vel. Stjórnendur hafi brugðist við breyttu rekstrarumhverfi og leitað leiða til aukinnar hagræðingar. Í skýrslu stjórnar félagsins kom fram,  að áreiðanleikakönnun sem gerð var af hálfu Framtakssjóðs Íslands hefði sýnt sterka stöðu Vodafone og að undirliggjandi rekstur hefði verið góður um árabil.“

Erfiðleikar Teymis ekki vegna Vodafone

Samkvæmt fréttatilkynningu kom fram í skýrslu stjórnar að erfiðleikar Teymis, sem var móðurfélag Vodafone um áratuga skeið, voru ekki vegna reksturs Vodafone heldur vegna mikilla skuldsetningar við stofnun Teymis.

„Rekstur Vodafone hefur einkennst af aðhaldsemi í rekstri og innri vexti sem hefur breikkað tekjugrunn fyrirtækisins. Þetta sést m.a. á því að ekki hafa verið tekin lán vegna fjarskiptastarfsemi fyrirtækisins frá árinu 2003.“

Þór Hauksson stjórnarformaður

Á aðalfundinum var stjórn fyrirtækisins endurkjörin, en hún er skipuð Brynju Guðmundsdóttur, Einari Páli Tamimi, Helgu Viðarsdóttur, Reimari Péturssyni og Þór Haukssyni sem gegnir hlutverki stjórnarformanns. Varamenn í stjórn voru kjörnir Finnbogi Jónsson og Kristinn Pálmason.