Hagnaður af rekstri móðurfélags Vodafone á Íslandi fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBITDA) var rúmur 2,4 milljarðar á síðasta ári. Rekstrartekjur námu 12,7 milljörðum. Þar af voru tekjur af starfsemi í Færeyjum um 1,5 milljarðar, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Aðalfundur Eignarhaldsfélagsins Fjarskipta, eiganda Vodafone, var haldinn í dag.

Hagnaður eftir skatta nam 248 milljónum króna. Vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 7,4% milli ára og eigið fé jókst um 6,2%. Eiginfjárhlutfallið við lok árs var 27,6%.

„Stöðugleiki náðist við rekstur félagsins, þótt ytri aðstæður væru um margt óhagstæðar. Almennar verðlagshækkanir, lækkandi lúkningatekjur vegna tilskipana Póst- og fjarskiptastofnunar auk kjarasamnings-, skatta- og vaxtahækkana sniðu fyrirtækinu þröngan stakk á meðan tekjur af fjarskiptaþjónustu stóðu í stað. Tekjusamsetningin breyttist nokkuð, þar sem tekjur af farsíma- og heildsöluþjónustu drógust nokkuð saman á meðan veruleg aukning varð á tekjum vegna sjónvarpsþjónustu,“ segir í tilkynningu.

Viðskiptavinum fjölgaði á síðasta ári. Fastlínuviðskiptum fjölgaði um 6% og fjöldi gagnatenginga jókst um 7%. Þá fjölgaði notendum sjónvarps Vodafone um 35%.