Hagnaður Vodafone eftir skatta á síðasta ári nam 847 milljónum króna og er 112% hærri en á árinu 2012, þegar hann var 400 milljónir. EBITDA afkoma ársins var 2996 milljónr króna og jókst um 8% frá fyrra ári. EBITDA hagnaður á fjórða fjórðungi var 735 milljónir króna og jókst um 22% frá sama fjórðungi árið áður. Ársreikningur fyrirtækisins fyrir rekstrarárið 2013 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi í dag.

Rekstrarniðurstaða fyrirtækisins var mjög misjöfn eftir fjórðungum. Fyrsti fjórðungur var langsístur en þá var hagnaður eftir skatta 24 milljónir króna. Þriðji fjórðungur var aftur á móti bestur en þá var hagnaðurinn 415 milljónir króna. Á bæði öðrum og fjórða fjórðungi var hagnaðurinn svo rétt rúmar 200 milljónir króna.

Ómar Svavarsson forstjóri Vodafone segir að afkoma ársins 2013 hafi í heild verið góð og í takt við útgefnar horfur. Hann segir að gert hafi verið ráð fyrir talsverðum sveiflum milli ársfjórðunga og það hafi orðið raunin. „Félagið varð fyrir mikilli ágjöf í framhaldi af innbroti á heimasíðu félagsins í lok nóvember, en við höfum gripið til margvíslegra aðgerða sem allar miða að því að styrkja félagið og koma í veg fyrir að mál af þessu tagi endurtaki sig. Við höfum einnig lagt okkur fram um að miðla af reynslunni, svo okkar reynsla nýtist samfélaginu öllu á tímum alþjóðlegrar netvár,“ segir Ómar í tilkynningu vegna uppgjörsins.