*

fimmtudagur, 24. september 2020
Erlent 15. ágúst 2019 19:00

Hagnaður Walmart 447 milljarðar

Meiri sala var í verslunum Walmart en búist var við á 2. ársfjórðungi meðan netverslunin jókst um 37%.

Ritstjórn
epa

Bandaríska verslunarkeðjan Walmart hagnaðist um 3,6 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 447,4 milljörðum íslenska króna á öðrum ársfjórðungi, sem er mikill viðsnúningur frá sama tíma fyrir ári þegar tapið nam 861 milljón dölum.

Voru tekjur félagsins nokkuð yfir væntingum, eða 130,38  milljarðar dala en markaðsaðilar höfðu búist við að þær myndu nema 130,11 milljörðum. Á sama tíma fyrir ári námu tekjurnar 128,03 milljarði dala, svo tekjurnar jukust um 1,8%.

Er þetta 20. ársfjórðungurinn í röð hjá félaginu sem salan vex. Jókst salan að meðaltali í hverri búð félagsins um 2,8%, en búist hafði verið við 2,1% vexti.

Netsala félagsins jókst um 37% yfir ársfjórðunginn, sem er á svipuðum nótum og á fyrsta ársfjórðungi. Segir félagið ástæðuna vera að smátt og smátt hefur félagið boðið upp á heimsendingu á vörum daginn eftir í Bandaríkjunum og nái nú sú þjónusta til 75% íbúa landsins.

Samkvæmt frétt CNBC þá segja greinendur að félaginu hafi svo tekist að bíta í hælana á Prime degi Amazon sem er afsláttardagur snemma í júlí en þá náði Walmart með eigin afsláttum að ná að fá um 14% af þeim heimsóknum sem Amazon fékk á sína síður.

Walmart er bæði stærsta fyrirtæki heims í tekjum talið og í fjölda starfsmanna, en þeir nema um 2,2 milljón manns. Hlutafélagið er að meira en helmingi í eigu erfingja stofnandans Sam Walton.