Danski bjórframleiðandinn Carlsberg hagnaðist um 2,1 milljarð danskra króna á þriðja ársfjórðungi, en það jafngildir um 44 milljörðum íslenskra króna.

Hagnaður fyrirtækisins dregst saman um 4,8% frá sama tímabili á síðasta ári. Tekjur frá Rússlandi hafa þar mest að segja, en þær drógust saman um 15% milli ára vegna veikara gengis rússneska gjaldmiðilsins. Tæpur fjórðungur sölu fyrirtækisins er til aðila í Rússlandi.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkaði um 2,7% eftir kynningu uppgjörsins, sem sérfræðingar segja hafa verið betra en búast mátti við.