Saman högnuðust Kortafyrirtækin Valitor, Borgun og Kortaþjónustan um 1,8 milljarða króna á síðasta ári. Öll bæta þau afkomu sinna á milli ára en mesti afkomumunurinn er hjá Kortaþjónustunni. Árið 2013 nam hagnaður fyrirtækisins þremur milljónum króna en á síðasta ári nam hann 279 milljónum. Afkomumunur Kortaþjónustunnar er fyrst og fremst vegna máls sem fyrirtækið höfðaði gegn Borgun, Valitor og Greiðsluveitunni árið 2012 vegna samráðs á greiðslukortamarkaði og fól í sér að fyrirtækin greiddu Kortaþjónustunni samtals 250,3 milljónir króna í skaðabætur sem teknar eru með í reikninginn í ársreikningi síðasta árs.

1,6 milljarða króna sekt

Þá er ekki tekið með annað og stærra mál sem félagið höfðaði gegn Íslandsbanka, Landsbankanum, Arion banka, Valitor og Borgun og lauk með dómsátt í desember á síðasta ári. Hún fól í sér að fyrirtækin fjögur voru sektuð af Samkeppniseftirlitinu fyrir samtals 1.620 milljónir króna. Sekt Íslandsbanka nemur 380 milljónum króna, sekt Arion banka nemur 450 millj­ ónum króna, sekt Landsbankans nemur 450 milljónum króna, sekt Valitor nemur 220 millj­ónum króna og sekt Borgunar nemur 120 milljónum króna. Dómsáttin var ekki aðeins merkileg vegna þeirra háu sektarupphæða sem hún framkallaði heldur einnig vegna þeirra breytinga sem komu í kjölfar hennar á regluverki greiðslukortamarkaðarins. Þær fela m.a. í sér að hámark hefur verið sett á svonefnt milligjald sem er þóknun sem rennur til bankanna í gegnum færsluhirða frá söluaðilum. Einnig hafa Valitor og Borgun fallist á að skilja á milli útgáfuþjónustu og færsluhirðingar en samrekstur þessara starfsþátta hefur falið í sér samkeppnishindranir gagnvart öðrum keppinautum á greiðslukortamarkaði að mati Samkeppniseftirlitsins. Einnig eru ákvæði gegn því að keppinautar á viðskiptabankamarkaði geti átt saman greiðslukortafyrirtæki auk þess sem tryggt er að Valitor og Borgun þjónusti aðra en eigendur sína á jafnræðisgrundvelli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .