Kvika eignastýring hf., hagnaðist um 736 milljónir króna á fyrri hluta ársins, það er frá 1. janúar til 30. júní 2020. Hagnaðuraukningin er því tæplega níföld milli ára, en hagnaðurinn var 84 milljónir króna á sama tímabili árið 2019. Eignir í stýringu félagsins jukust um rúma 8 milljarða króna á tímabilinu og stóðu í 137,7 milljörðum króna í lok tímabilsins.

Hreinar rekstrartekjur námu rúmlega 1.200 milljónum króna, sem er 240% aukning frá sama tíma fyrir ári þegar þær námu 355 milljónum króna. Rekstrargjöldin jukust á sama tíma um 15,5%, úr tæplega 247 milljónum króna, úr 285 milljónir króna, en þar af jukust laun og launatengd gjöld um þriðjung, eða úr 159 milljónum í 210 milljónir króna.

Eigið fé félagsins jókst um rúmlega 700 milljónir króna á tímabilinu og stóð í 1.539 milljónum króna í lok júní, en það var 803 milljónir í ársbyrjun. Skuldirnar jukust á sama tíma um tæplega 7, úr 438 milljónum í 467 milljónir króna, svo eignirnar jukust um 62%, úr 1.241 milljón í 2.006 milljónir króna. Þar með hækkaði eiginfjárhlutfallið úr 64,7% í 76,7%.

Í byrjun september var eignastýringastarfsemi Kviku banka og Júpíters rekstrarfélags formlega sameinuð undir nafninu Kvika eignastýring hf., sem í dag er eitt stærsta eigna- og sjóðastýringarfyrirtæki landsins.

Hannes Frímann Hrólfsson , framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar segist afar ánægður með rekstur Kviku eignastýringar á fyrri hluta árs 2020.

„Félagið hefur verið í örum vexti síðustu misseri og tekjugrunnur félagsins er dreifður. Í september sl. færðist eignastýringarstarfsemi sem áður var í Kviku banka hf. til félagsins. Eftir þær breytingar er félagið orðið eitt stærsta eigna- og sjóðastýringarfyrirtæki landsins,“ segir Hannes Frímann.

„Með þessum breytingum teljum við að hægt sé að bæta þjónustu við viðskiptavini okkar enn frekar með skýru og skilvirku skipulagi. Sameinað félag samanstendur af mjög hæfu og reynslumiklu starfsfólki og meginmarkmið félagsins er að veita viðskiptavinum áfram framúrskarandi þjónustu við ávöxtun fjármuna.

Aukin áhersla er lögð á greiningarvinnu og að geta boðið viðskiptavinum okkar upp á fjölbreytt úrval fjárfestingakosta, hvort sem er hér á landi eða erlendis. Einnig er það okkar trú að þessar breytingar muni styrkja starfsemina til frekari vaxtar.“