Hagnaður Íslenskrar erfðagreiningar jókst um 8 milljónir Bandaríkjadala, eða úr 544 þúsund dölum árið 2017 í 8,5 milljónir á síðasta ári, sem er næstum sextánföld aukning. Nemur hagnaðurinn rétt rúmlega milljarði íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Rekstrartekjur félagsins jukust mun minna, eða um 11%, í 99,5 milljónir dala, en þær koma flestar til sem seld þjónusta til móðurfélagsins Amgen. Á sama tíma jókst rekstrarkostnaðurinn um 9%, í tæplega 91,8 milljónir dala.

Kári Stefánsson er forstjóri fyrirtækisins, en í skýringum kemur fram að heildarlaun og þóknanir til stjórnenda fyrirtækisins hafi numið einni milljón Bandaríkjadala á árinu, og sama eigi við um heildarlaun og þóknani á árinu 2017. Það gerir miðað við núverandi gildi 122,95 milljónir, en ekki kemur fram á hve marga sú fjárhæð skiptist.

Skuldir félagsins lækkuðu um 44,7% milli ára, úr 95,8 milljónum dala í tæplega 53 milljónir, en á sama tíma lækkuðu jókst eigið fé þess úr 5,1 milljón dala í nálega 33 milljónir. Svo í heildina fóru eignir þess úr 101 milljón dala í tæplega 86 milljónir frá byrjun árs 2018 til loka þess.