Í tillögum Glitnis um það hvernig þrotabúið og kröfuhafar þess geti uppfyllt stöðugleikaskilyrðin er að finna mismunandi reiknireglur um það hvernig hagnaður af sölu Íslandsbanka eigi að skiptast milli Glitnis og ríkissjóðs eftir því hvort kaupandi Íslandsbanka er erlendur eða innlendur. Reglurnar gera það að verkum að í öllum tilvikum er það hagstæðara fyrir Glitni, og þar af leiðandi kröfuhafa, að selja bankann erlendum aðila. Tillögurnar eru ítarlegar og nokkuð flóknar og verða ekki allar tíundaðar hér, heldur látið nægja að nefna þá þætti er snerta þetta tiltekna atriði.

Sem hluta af stöðugleikaframlaginu mun Glitnir gefa út og afhenda ríkissjóði verðtryggt skuldabréf að fjárhæð 119 milljarðar króna að nafnvirði. Skuldabréfið á að greiða upp við sölu Glitnis eða að þremur árum liðnum. Verði bankinn seldur innlendum aðila fyrir 85 milljarða eða minna rennur allt andvirðið til Glitnis og þarf þrotabúið því þá að greiða a.m.k. 34 milljarða til viðbótar til að gera upp skuldabréfið. Ríkið fær einn þriðja af öllum hreinum söluhagnaði á bilinu 85 til 119 milljarðar króna, helming af öllum hreinum söluhagnaði á bilinu 119 til 136 milljarðar króna og þrjá fjórðu af öllum hreinum söluhagnaði yfir 136 milljörðum króna. Þetta þýðir að Íslandsbanki þarf að seljast á tæpa 145 milljarða íslenskra króna eigi þrotabúið að koma út á sléttu að skuldabréfinu greiddu.

Aðrar reglur gilda ef bankinn er seldur til erlends aðila fyrir erlendan gjaldeyri. Ef eiginfjárhlutfall bankans er 23% eða minna fær ríkissjóður 60% af söluandvirðinu og Glitnir og kröfuhafar 40%. Sé eigið fé hærra en 23% fær ríkissjóður mismuninn.

Þessar mismunandi reiknireglur þýða að í öllum tilfellum er hagstæðara fyrir Glitni að selja bankann til erlends aðila. Raunar er hagstæðara fyrir Glitni að selja Íslandsbanka til erlends aðila fyrir einn Bandaríkjadal en að selja bankann innlendum aðila fyrir 144 milljarða í íslenskum krónum.

Rétt er að halda því til haga að í tillögunum segir að selja eigi bankann með viðskiptalega skynsamlegum hætti og fyrir sanngjarnt markaðsvirði. Seðlabanki Íslands skuli tilnefna fjárfestingarbanka til að fara yfir kaupsamninginn. Ef fjárfestingarbankinn kemst að þeirri niðurstöðu að verið sé að selja Íslandsbanka á minna en 90% af matsvirði fjárfestingarbankans verður Íslandsbanki ekki seldur ef kaupverðið er lægra en bókfært virði bankans.

Engu að síður gera reiknireglurnar það mun líklegra að bankinn verði seldur erlendum aðila, vegna þess að erlendur aðili þarf ekki að bjóða hærra en innlendur til að Glitnir komi betur út.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .