Ríflega 12 milljarða króna söluhagnaður myndast hjá Skeljungi við sölu fasteignasafns félagsins og sölu olíufélagsins P/F Magn í Færeyjum. Skeljungur mun leigja fasteignirnar aftur af kaupendum gangi viðskiptin eftir.

Skeljungur tilkynnti í kvöld að félagið hafi gengið frá samkomulagi og viljayfirlýsingu um sölu fasteigna upp á 8,8 milljarða króna en bókfært virði eignanna nam tæplega 2,6 milljörðum króna í lok september. Út frá því má áætla að um 6,2 milljarða söluhagnaður myndist hjá Skeljungi gangi öll viðskiptin eftir. Stærsti kaupandi fasteignanna er fasteignafélagið Kaldalón , en Strengur er stærsti hluthafi bæði Skeljungs og Kaldalóns.

Orkan IS, dótturfélag Skeljungs, mun leigja eignirnar aftur á um 493 milljónir króna á ári en kostnaðurinn nemur 433 milljónum króna að teknu tilliti til lækkunar á rekstrarkostnaði eignanna. Áætlaðar leigutekjur Orkunnar IS vegna endurleigu eignanna til þriðja aðila verða um 115 milljónir króna á ári.

Þá greindi Skeljungur einnig frá því í kvöld að öllum fyrirvörum um sölu á olíufélaginu P/F Magn í Færeyjum hefði verið aflétt. Félagið hefur áður gefið út að sex milljarða söluhagnaður myndist við söluna . Því má áætla að alls myndist um 12,2 milljarða króna söluhagnaður af viðskiptunum hjá Skeljungi sem tilkynnt var um í kvöld.

Áform Strengs að ganga eftir

Strengs hópurinn eignaðist meirihluta í Skeljungi í byrjun þessa árs . Að Streng standa félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar eigenda fasteignasölunnar RE/MAX auk breskra fjárfesta. Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður Ingibjargar, er stjórnarformaður Skeljungs og Strengs.

Í yfirtökutilboði sem Strengur gerði í Skeljung fyrir ríflega ári var gefið út að gera miklar breytingar yrðu gerðar á rekstrinum. Meðal annars stæði til að selja eignir félagsins og greiða söluandvirðið til hluthafa sem m.a. átti að nýta til að greiða lán sem tekin voru til að fjármagna yfirtöku Strengs á Skeljungi. Efnahagsreikningur Skeljungs myndi því minnka töluvert.

Yfirtökutilboð Strengs var upphaflega gert á genginu 8,315 krónur á hlut en Strengur greiddi hæst 10,5 krónur á hlut til að eignast meirihluta í Skeljungi. Í dag stendur gengi bréfa Skeljungs í 13,8 krónum á hlut.