Hagnaður Landsbankans á öðrum fjórðungi ársins nam 6,5 milljörðum króna miðað við 341 milljóna hagnað á sama ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallarinnar.

Frá áramótum hefur bankinn hagnast um 14,1 milljarð króna sem er viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra þegar tap bankans nam 3,3 milljörðum. Á ársgrundvelli var arðsemi eigin fjár 10,8% en það var neikvætt um 2,7% í fyrra. Arðsemi eigin fjárs á öðrum fjórðungi nam 9,8% miðað við 0,6% fyrir ári síðan.

Þá var kostnaðarhlutfall bankans 43,7% á fyrri hluta árs miðað við 54,1% fyrir ári síðan. Hreinar vaxtatekjur voru 10,3 milljarðar á fjórðungnum og hækka um 800 milljónir króna frá sama tíma í fyrra. Hreinar þjónustutekjur jukust um 35% frá því í fyrra og námu 2,3 milljörðum. Þjónustutekjur jukust um 21% frá áramótum, sjóðsáskriftum fjölgaði um 19% og samningum um þjónustu vegna verðbréfaviðskipta fjölgaði um ríflega þriðjung.

Frá áramótum hafa eignir í stýringu samstæðu bankans aukist um 90 milljarða og nema nú 643 milljörðum. Frá því í júní í fyrra hafa heildareignir bankans aukist um 176 milljarða króna og nema þær nú ríflega 1.677 milljörðum. Þar af voru útlán til viðskiptavina um 1.328 milljarðar, innlán frá viðskiptavinum um 842 milljarðar og eigið fé um 268 milljarðar. Eiginfjárhlutfall bankans í lok júní var 25,1% sem er talsvert umfram 18,9% markmið Fjármálaeftirlitsins.

Um 40% markaðshlutdeild

Uppgjör bankans fyrstu sex mánuði ársins er afar gott; arðsemi eiginfjár er góð, kostnaður lækkar og traust afkoma var af öllum starfsþáttum. Merkjanleg aukning er í eignastýringu og markaðshlutdeild bankans hefur aldrei verið hærri. Um mitt ár 2020 settum við verulegar fjárhæðir í varúðarsjóð vegna mögulegra útlánatapa en vegna betri stöðu í efnahagslífinu og fárra vanefnda eru virðisbreytingar útlána nú jákvæðar og varúðarsjóður lækkar á árinu. Bankinn er eftir sem áður í góðri stöðu til að takast á við áframhaldandi óvissu og bregðast við áhrifum Covid-19-faraldursins,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, í tilkynningunni.

Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði nemur nú 39% en bankinn hefur verið með hæstu hlutdeildina á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014. Þá fjölgaði íbúðalánum um 14% frá áramótum en eins og flestum er kunnugt um hefur ríkt umtalsverð spenna á íbúðamarkaði síðan um áramótin.

Laun og tengd gjöld lækkuðu um 100 milljónir frá sama fjórðungi í fyrra og námu 3,7 milljörðum króna en stöðugildum fækkaði samfara því úr 872 í í 844. Þá var rekstrarkostnaður að frátöldum launum og tengdum gjöldum 2,2 milljarðar króna og breytist ekki frá því í fyrra.

Nýr Horn framtakssjóður

Þá segir Lilja að á döfinni sé nýr 15 milljarða framtakssjóður. „Á næstunni mun svo þriðji sjóðurinn, Horn IV, líta dagsins ljós en það er nýr 15 milljarða króna framtakssjóður sem kemur í kjölfar velgengni fyrri Hornsjóða og er ætlaður fagfjárfestum. Velgengni  í eignastýringu er til marks um það traust sem fjárfestar sýna bankanum og Landsbréfum.“