*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 28. október 2021 11:41

Hagnast um 21,6 milljarða á árinu

Landsbankinn hagnaðist um 7,5 milljarða króna á þriðja fjórðungi þessa árs. Útlán hafa aukist um 103 milljarða á þessu ári.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Landsbankinn hagnaðist um 7,5 milljarða króna á þriðja fjórðungi þessa árs og nemur hagnaður bankans það sem af er ári 21,6 milljörðum króna. Á þriðja fjórðungi síðasta árs nam hagnaðurinn 699 milljónum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 10,9% á ársgrundvelli. Hreinar vaxtatekjur námu 28,6 milljörðum, jukust um 200 milljónir frá samanburðartímabili, en hreinar þjónustutekjur 6,9 milljörðum. Heildareignir jukust um 154 milljarða á þriðja fjórðungi og námu samanlagt 1.718 milljörðum í lok september.

Útlán það sem af er ári jukust um 103 milljarða sem rekja má til aukningar á lánum til einstaklinga. Um 93% nýrra lántaka ákváðu að taka óverðtryggð lán og fleiri kjósa fasta vexti. Á móti hafa innlán viðskiptavina einnig aukist og stóðu þau í 869 milljörðum í lok september. Hafa þau aukist um 76 milljarða frá áramótum. Eigið fé bankans var 275,3 milljarðar.

Í tilkynningu bankanes er þess getið að áskriftum að sjóðum Landsbréfa hafi fjölgað um ríflega þriðjung og samningum vegna verðbréfaviðskipta hafi fjölgað um 40%. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði er 39% og markaðshlutdeild í íbúðalánum mælist nú 28,7%. Hafa þau hlutföll aldrei verið hærri.

„Afkoma bankans á þriðja ársfjórðungi og á árinu endurspeglar annars vegar góðan árangur í rekstri og starfsemi bankans og hins vegar betri stöðu í hagkerfinu. Tekjur hafa aukist og fleiri einstaklingar, fyrirtæki og fagfjárfestar beina nú viðskiptum sínum til bankans og umsvif þeirra eru meiri en áður. Um leið hefur okkur tekist að halda rekstrarkostnaði í skefjum og hlutfall kostnaðar af tekjum er með því lægsta sem þekkist hjá bönkum í Evrópu,“ er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur bankastjóra í tilkynningunni.

Stikkorð: Landsbankinn