Straumhvarf, sem er dótturfélag Arctic Adventures, hagnaðist um 356 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 80% á milli ára. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Rekstrartekjur félagsins námu rúmlega 3,4 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við tæpa 2 milljarða árið 2016. Rekstrargjöldin voru svo 2,9 milljarðar, en þau jukust um 1,1 milljarð á milli ára.

Félagið Straumhvarf á félögin Scuba Iceland, Arctic Sea Tours, Magmadive, Austari og tvö hótel á Suðurlandi að fullu.

Eignir Arctic Adventures námu 2,1 milljarð króna í lok síðasta árs, samanborið við 1,4 milljarða í lok árs 2016. Eigið fé félagsins var um 994 milljónir í lok síðasta árs.

Lagt hefur verið til af stjórn Straumhvarfs að greiddur verði 400 milljóna króna arður til hluthafa fyrirtækisins í ár. Samkvæmt skýrslu stjórnarinnar er talið líklegt að hægja muni á innri vexti félagsins í ár. Það mun vera vegna minni vaxtar í komum ferðamanna. Því muni félagið bregðast við með markaðssókn og auknu kostnaðarhaldi.