Hagnaður Origo á þriðja fjórðungi ársins nam 365 milljón krónum samanborið við 90 milljónir á sama tímabili í fyrra. Hagnaður það sem af er ári nemur 612 milljónum. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins.

Tekjur á fjórðungnum námu 4.257 milljónum og eru rúmlega 260 milljónum hærri en á þriðja fjórðungi ársins 2020. Það sem af er ári hafa tekjur aukist um 700 milljónir. Framlegð nemur um 1,1 milljarði króna á hverjum fjórðungi fyrir sig.

Þýðingarmunur dóttur- og hlutdeildarfélaga hafði jákvæð áhrif á afkomu fjórðungsins sem nemur 172 milljónum rúmum. Eignir félagsins eru metnar á rúmlega 13 milljarða og var eigið fé 7,6 milljarðar. Eiginfjárhlutfall nemur 58,4% og hefur hækkað um tæp tvö prósent frá ársbyrjun.

„Bættur rekstur einkennir uppgjör Origo á þriðja ársfjórðungi 2021. Tekjur vaxa um 7% og félagið skilar 10,4% EBITDA á fjórðungnum sem er 30% hækkun frá fyrra ári. Samanburðurinn er þó að einhverju leiti litaður af samanburði við tímabil á síðasta ári þar sem Covid 19 hafði meiri áhrif á rekstur félagsins. Á fyrstu 9 mánuðum ársins er tekjuvöxtur 5,8% og EBITDA hlutfall 8,5%. Tekjuvöxtur er mestur í notendabúnaði eða 17%, vöxtur í hugbúnaði er rúm 7% en samdráttur er í rekstrarþjónustu, einkum vegna minni innviðasölu,“ er haft eftir forstjóranum Jóni Björnssyni í tilkynningu.