Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga fyrri hluta árs 2014 namr 369 milljónum króna. Þetta er 51 milljón króna minna en á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri sjóðsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins að heildareignir hans hafi í lok júní numið 78.289 milljónum króna á móti 77.095 milljónum króna í lok síðasta árs. Heildarútlán lánasjóðsins námu 70.992 milljónum króna í lok tímabilsins samanborið við 69.316 í árslok 2013.

Þá nam eigið fé hans 15.788 milljónum króna á móti 15.777 milljónum króna í árslok 2013 og hefur aukist um 0,1% á tímabilinu.

Fram kemur um framtíðarhorfur Lánasjóðs sveitarfélaga að sjóðurinn muni starfa í meginatriðum líkt og undanfarin ár þar sem stefnt hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum.