Hagnaður tölvuleikjaframleiðandans Activision Blizzard nam 280 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 38 milljörðum króna. Hagnaðurinn dróst töluvert saman á milli ára, en hann nam 876 milljörðum dala á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal. Greinendur höfðu gert ráð fyrir um 410 milljóna dala hagnaði.

Velta tölvuleikjaframleiðenda jókst talsvert í faraldrinum þegar samkomutakmarkanir voru við lýði. Nú þegar líf flestra er orðið eðlilegt á ný og minna um samkomutakmarkanir eru neytendur farnir að draga úr neyslu á tölvuleikjum, sérstaklega í ljósi verðbólgunnar, að því er kemur fram í grein WSJ.

Sjá einnig: Stærstu kaup í sögu Microsoft

Microsoft keypti Activision fyrir 68,7 milljarða dala í byrjun árs, en um var að ræða langstærstu fyrirtækjakaup í sögu Microsoft.

Activision Blizzard hefur framleitt marga tölvuleiki sem hafa farið sigurför um heiminn. Þar nægir að nefna leiki á borð við Crash Bandicoot, World of Warcraft, Call of Duti, Diablo, Candy Crush og Overwatch.