*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 27. ágúst 2021 10:24

Hagnast um 3,9 milljarða

Hagnaður Síldarvinnslunnar þrefaldast á milli ára. Félagið hefur hækkað um 2% í fyrstu viðskiptum dagsins.

Ritstjórn
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar
Birgir Ísl. Gunnarsson

Síldarvinnslan skilaði 31,6 milljóna dala hagnaði eftir skatta á öðrum ársfjórðungi, eða sem nemur 3,9 milljörðum króna. Um er að ræða meira en þrefalt hærri hagnað en á sama tíma í fyrra þegar hagnaður félagsins nam 7,1 milljón dala. Útgerðargerðarfélagið hagnaðist um nærri 6,7 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins 2021. Þetta kemur fram í árshlutareikningi sem félagið skilaði eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Gengi Síldarvinnslunnar, sem var skráð í Kauphöllina í maí síðastliðnum, hefur hækkað um meira en 2% í fyrstu viðskiptum dagsins.

Rekstrartekjur Síldarvinnslunnar hækkuðu um helming frá fyrra ári og námu 5,8 milljörðum á öðrum fjórðungi. Aukning stafar fyrst og fremst af loðnuvertíð, að því er kemur fram í tilkynningu félagsins. EBITDA hagnaður þrefaldaðist á milli ára, í dölum talið, og nam 1,6 milljörðum á tímabilinu.

Í lok júní voru eignir Síldarvinnslunnar 74,4 milljarðar króna. Skuldir námu 26,2 milljörðum og eigið fé 48,2 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var því um 64,8%.

Handbært fé frá rekstri nam 3,9 milljörðum á fyrri árshelmingi 2021 en var 2,3 milljarðar á sama tíma í fyrra. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 9,6 milljarða á fyrri árshelmingi, sem skýrast helst af kaupunum á Bergi ehf. og smíði á nýjum Berki.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Uppgjörið endurspeglar vel þær sveiflur sem sjávarútvegurinn býr við og hvað ein loðnuvertíð er mikilvæg fyrirtæki eins og okkar. Að sama skapi hefur það sýnt sig í gegnum þessa Covid tíma hvað öflugt starfsfólk skiptir miklu máli.

Efnahagur félagsins er sterkur sem er mikilvægt til að mæta þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér. Fyrirtæki þurfa stöðugt að vera vakandi fyrir nýjum lausnum í sínum rekstri og fyrir sjávarútvegsfyrirtæki er mikilvægt að leita leiða til að auka verðmæti auðlindarinnar með sem minnstum umhverfisáhrifum.“

Stikkorð: Síldarvinnslan