*

föstudagur, 4. desember 2020
Innlent 27. október 2019 11:08

Hagnast um 400 þúsund á Svikamyllu

Veltan jókst töluvert á milli ára hjá félaginu en tilgangurinn þess er m.a. niðurrifsstarfsemi á kapítalismanum.

Ritstjórn
Hatari tók þátt í lokakeppni Eurovision í Ísrael síðasta vor.
epa

Svikamylla ehf. skilaði 400 þúsund króna hagnaði á síðasta rekstrarári. Eigendur Svikamyllu eru þeir Klemens Hannigan, Matthías Haraldsson og Einar Stefánsson. Þremenningarnir skipa raftónlistar- hljómsveitina Hatara en eins og flestir vita þá tók hljómsveitin þátt í lokakeppni Eurovision í Ísrael síðasta vor fyrir Íslands hönd.

Eignarhaldsfélag þeirra félaga velti 4,7 milljónum króna árið 2018, sem er töluvert meira en árið á undan þegar veltan nam 1,8 milljón. Hagnaður Svikamyllu dróst hins vegar saman á milli ára. Fór hann úr 800 þúsund krónum árið 2017 í 400 þúsund og vegur þar þyngst að rekstrarkostnaður fór úr 700 þúsund krónum 2017 í 4,1 milljón árið 2018. Eignir Svikamyllu námu 1,9 milljónum króna um síðustu áramót og félagið skuldaði þá tæpar 200 þúsund. Eigið fá nam 1,7 milljónum.

Í ársreikningi Svikamyllu segir að tilgangur félagsins sé niðurrifsstarfsemi, hverskonar, á kapítalismanum, að eiga og reka fasteignir, miðla íslenskum og erlendum dómsdagskveðskap, margmiðlun, útgáfa, vitundarvakning, stunda innflutning og önnur viðskipti svo og lánastarfsemi.