Hagnaður Skeljungs á þriðja fjórðungi ársins nam 574 milljón krónum og jókst um 104 milljónir frá fyrra ári. Framlegð félagsins var tæplega þrír milljarðar og hækkar um 10,3% milli samanburðartímabila. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins.

EBITDA hagnaður nam 1,3 milljörðum, sem er 26% hækkun frá fyrra ári, og EBITDA framlegð var 44,6% miðað við 39% áður. Arðsemi eigin fjár, á ársgrundvelli, var 13,8%.

Við birtingu ársreiknings 2020 gaf Skeljungur út afkomuspá og áætlaði að EBITDA ársins 2021 yrði á bilinu 3-3,4 milljarðar og fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum yrði á bilinu 750-850 milljónir. Þann 28. september sl. uppfærði félagið EBITDA spá ársins í 3,5-3,7 milljarðar.

„Afkoma þriðja ársfjórðungs hjá samstæðunni var mjög góð sem skýrist m.a. af því bættum aðstæðum í efnahagslífinu og fjölgun ferðamanna. Þá tekst okkur að lækka rekstrarkostnað um rúmlega 6% milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins," er haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu.

Sem stendur er unnið að uppskiptingu á rekstri félagsins en í síðasta mánuði samþykkti hluthafafundur, þótt umdeilt sé hvort rétt hafi verið staðið að því, að skipta rekstri félagsins upp. Hefur það í för með sér að stofnuð verða þrjú dótturfélög um kjarnareksturinn á Íslandi. Enn fremur standa yfir viðræður við Sp/f Orkufelagid en það hefur áhuga á að kaupa P/f Magn af Skeljungi. Ráðgert er að viðræðum ljúki í næsta mánuði.