Hugbúnaðarfyrirtækið Novomatic Lottery Solutions hf., áður Betware, hagnaðist um 645 milljónir á árinu og jókst hagnaður um 193 milljónir frá árinu 2016 samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2017. Rekstrarhagnaður félagsins (EBIT) dróst hins vegar saman um 356 milljónir milli ára. Skýrist þessi munur að miklu leyti af því að árið 2016 var gengismunur neikvæður um 334 milljónir en var jákvæður um 162 milljónir á síðasta ári. Eignir félagsins námu 2,9 milljörðum í lok árs á meðan skuldir voru 910 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 69,3%. Í apríl síðastliðnum sagði félagið upp 18 starfsmönnum í hugbúnaðargerð. Eftir uppsagnirnar starfa 94 starfsmenn hjá fyrirtækinu á Íslandi.