Marel náði 15% tekjuvexti á árinu 2015. Tekjur voru 819 milljónir evra, andvirði um 117 milljarða króna á gengi dagsins í gær, og var leið- réttur rekstrarhagnaður 100 milljónir evra eða 12,2% af tekjum samanborið við 49 milljónir evra árið 2014. Hagnaður ársins 2015 nam 57 milljónum evra, andvirði um 8,1 milljarðs króna, samanborið við 12 milljónir evra árið 2014.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 119,7 milljónum evra í fyrra, en var 102,2 milljónir evra árið 2014. Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu á milli ára, voru 174,3 milljónir í árslok 2014, en voru 142,8 milljónir evra um síðustu áramót. Hlutfall nettó skulda og EBITDA var 1,05 um síðustu áramót samanborið við 2,08 í árslok 2014. Hagnaður á hlut árið 2015 er 7,93 evru sent samanborið við 1,60 evru sent árið 2014. Pantanabókin í upphafi ársins 2016 stendur í 181 milljón evra samanborið við 175 milljónir evra í ársbyrjun 2015.

Ánægður með síðasta ár

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segir fyrirtækið vera verulega ánægt með síðasta ár. „Það er nokkuð ljóst. Við erum líka ánægð með að hafa lokið við okkar endurskipulagningu á síðustu tveimur árum,“ segir hann. „Það sem við erum sérstaklega ánægð með er að okkur tókst að herða markaðssóknina á sama tíma og við vorum að endurskipuleggja reksturinn, sem leiðir til þessa góða árangurs í 15% söluaukningu og tvöföldun á rekstrarhagnaðnum milli ára.“

Árni segir endurskipulagningarferlinu sem Marel hefur verið í síðustu tvö ár vera formlega lokið. Nú taki við að gera sífellt betur. Spurður um útlitið á yfirstandandi ári segir hann að 2015 hafi verið virkilega gott ár fyrir MPS, eins og það var fyrir Marel. Búast megi við hóflegum hagnaði á yfirstandandi ári eftir mikinn vöxt í fyrra. „En þó vexti í bæði tekjum og rekstrarhagnaði. Við erum að sameinast og sameiginlegar tekjur eru mjög nálægt einum milljarði evra og sameiginlegur rekstrarhagnaður yfir hundrað og þrjátíu milljónir evra,“ segir Árni Oddur.

Spurður hvenær búast megi við því að samlegðaráhrif vegna samrunans við MPS fari að hafa veruleg áhrif á rekstur Marel bendir Árni á að sameiningin hafi strax áhrif á hagnað á hvern hlut. „Vegna þess að við erum að taka yfir gott félag og erum að fjármagna okkur á mjög góðum kjörum. Svo munum við skref fyrir skref auka samstarfið og sam­ þætta stjórnun á félögunum. Við fórum náttúrulega í yfirtöku á Stork fyrir átta árum, sem styrkti stöðu okkar verulega í kjúklingi og gerði okkur að leiðtoga á þeim markaði. Þessi yfirtaka er keimlík þeirri yfirtöku, bara núna í kjöti. Við munum byggja á þeirri reynslu og erum væntanlega reynslunni ríkari í dag heldur en þá.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.