Bláa lónið hagnaðist um 8,1 milljón evra á síðasta ári, sem samsvarar rúmlega 1,2 milljörðum íslenskra króna. Eignir félagsins námu tæplega 45 milljónum evra og skuldir tæplega 29 milljónum evra. Eigið fé félagsins var því rúmlega 16 milljónir evra og jókst um fjórar milljónir evra milli ára úr rúmlega 12 milljónum.

Handbært fé félagsins í árslok nam 7,6 milljónum evra. Langstærstur hluti rekstrartekna Bláa lónsins í fyrra kom í gegnum aðgangseyri, eða rúmlega 18 milljónir evra, sem samsvarar tæplega 2,8 milljörðum króna. Rúmlega sex milljónir evra komu í kassann af veitingasölu og tæplega sex milljónir vegna vörusölu.