Gengi hlutabréfa HB Granda var í gær 40,9 krónur á hlut og markaðsvirði félagsins því um 72,7 milljarðar króna. Frá skráningu félagsins á aðallista kauphallar Nasdaq Iceland hefur gengið hækkað um 44% og er þá miðað við útboðsgengið 27,7. Frá árslokum 2013 hefur gengið hækkað enn frekar, en þá var gengi bréfa félagsins á First North markaðnum 22 krónur og nemur hækkunin frá þeim tíma 81,4%.

Stærsti hluthafi HB Granda er Vogun hf., sem er að nær öllu leyti í eigu Hvals hf., sem á nú 33,51% hlut í félaginu, en átti í ársbyrjun 2014 37,7% hlut. Í útboðinu 10. apríl, sem fór fram fyrir skráningu bréfanna, seldi Vogun hlutabréf í HB Granda fyrir rúma tvo milljarða króna og eftir útboðið átti Vogun 610,7 milljónir hluta sem hafa hækkað verulega í virði  frá skráningu, eða um eina 7,5 milljarða króna. Frá skráningu hefur Vogun því hagnast, bæði á sölu og með gengishækkun, um tæpa 9,5 milljarða króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Skiptastjórar slitastjórnanna hafa greitt sér rúma fimm milljarða króna í þóknanir
  • Ítarleg úttekt á fasteignamarkaðnum
  • Stjórnarandstaðan leggst harðlega gegn náttúrupassa
  • Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, er í viðtali
  • Stýrivextir verða óbreyttir og peningastefnunefnd hefur varann á vegna kjarasamninga
  • Hagnaðarsamdráttur Marels skýrist af stærstum hluta af einskiptiskostnaði
  • Controlant og Vodafone hafa gert samning um að Vodafone verði endursöluaðili fyrir M2M lausn Controlant
  • Tíðni vinnuslysa helst í hendur við aukin umsvif í atvinnulífinu
  • Óðinn fjallar um magnbundna íhlutun og Týr um misskiptingu auðs
  • Þá eru í blaðinu pistlar, myndir og margt margt fleira.