Eimskips hagnaðist um 2,5 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi. Þetta jafngilda rétt tæpum 400 milljónum króna á gengi dagsins. Til samanburðar nam hagnaður fyrirtækisins 600 þúsund evrum á sama tíma í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Eimskips að tekjur námu 105,3 milljónum evra á fjórðungnum sem er 12,4% aukning á milli ára. Þá nam rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) 7,2 milljónum evra. Eiginfjárhlutfall Eimskip nam 65,8% í lok mars.

Í uppgjörinu kemur fram að umsvif hafa aukist nokkuð á milli ára, s.s. að flutningamagn í áætlanasiglingum á Norður-Atlantshafi hafi aukist um 0,3% síðan í fyrra og flutningsmagn í frystiflutningsmiðlun 13,1% meira nú en í fyrra.

Haft er eftir Gylfa Sigfússyni, forstjóra Eimskips, að umfangsmiklar breytingar hafi verið gerðar á siglingakerfi félagsins þar sem einu skipi var bætt við kerfið. Það jafngildi 7,7% aukningu í afkastagetu. Þá hafi vikulegar strandsiglingar verið teknar upp, nýjar viðkomur í Færeyjum, Skotlandi, Póllandi og Bandaríkjunum. Í tengslum við þetta hafi félagið opnað skrifstofu í Gdynia í Póllandi í byrjun mars og var fyrsta viðkoma félagsins í Swinoujscie í Póllandi í apríl. Með þessari breytingu fái Eimskip tækifæri til að sækja inn á nýja markaði í Eystrasaltinu og þjónusta betur þá fjölmörgu viðskiptavini félagsins sem selja sjávarafurðir inná þann markað frá Íslandi, Færeyjum og Noregi.

Uppgjör Eimskips