Árið 2004 var niðurstaða rekstrarreiknings Flugleiða hf. hagnaður að fjárhæð 3,4 milljarðar króna og hefur aldrei fyrr verið jafn góð afkoma af starfsemi félagsins. Árið 2003 var hagnaður af starfseminni eftir skatta 1,1 milljarður króna. Heildarveltan á árinu var 43 milljarðar króna en var 38 milljarðar króna árið 2003. Hagnaður fyrir skatta árið 2004 var 4,1 milljarður króna, en var 1,4 milljarðar króna árið 2003. Veltufé frá rekstri var 5,4 milljarðar króna en var um 4,2 milljarðar króna árið 2003. Ársreikningur félagsins var samþykktur á fundi stjórnar Flugleiða í dag.

"Árangur ársins er á heildina litið mjög góður", segir Hannes Smárason,
stjórnarformaður Flugleiða. ?Hann endurspeglar annars vegar styrkleika í
rekstri sem skilaði góðri afkomu við erfiðar ytri kringumstæður, verulegar
eldsneytisverðhækkanir og aukna samkeppni. Þessar hræringar í
rekstrarumhverfinu sýna okkur að við þurfum að halda stöðugt áfram að
hagræða í rekstrinum. Hins vegar kemur glöggt í ljós í þessum ársreikningi
árangur af nýrri stefnu Flugleiðasamstæðunnar í alþjóðlegum fjárfestingum.
Það hefur víkkað starfssvið félagsins og skilað mjög góðri afkomu og
árangri."

Hagnaður af fjárfestingastarfsemi, sem var að mestu var í
flutningafyrirtækjum hér heima og erlendis, var 2,3 milljarðar króna fyrir
skatta. Um fimmtungur þess hagnaðar hefur þegar verið innleystur.

Fjármunamyndun í rekstri Flugleiða árið 2004 var óvenju góð og félagið var
því vel í stakk búið að nýta sterka lausafjárstöðu sína til að hefja nýtt
vaxtarskeið. Veltufé frá rekstri árið 2004 var 5,4 milljarðar króna og
jókst um 1 milljarð króna milli ára. Handbært fé og markaðsverðbréf í eigu
félagsins voru að verðmæti 19,4 milljarðar króna um áramót.

Markaðsvirði fyrirtæksins hækkaði um 58% á árinu. Heildarávöxtun hluthafa
að arði meðtöldum var 62% á árinu, en á tíu ára tímabili, 1995-2004, var
meðalávöxtun hluthafa Flugleiða um 24%.

Nýir þættir í starfseminni

Fjárfestingastarfsemi og alþjóðleg flugvélaleiga eru nýir þættir í rekstri
Flugleiða. Til undirbúnings þessum skrefum og öðrum sem félagið hyggst taka var samþykkt heimild til hlutafjáraukningar á hluthafafundi 18. október
síðastlinn. Hluthafar samþykktu heimild til að auka hlutafé félagsins um
allt að 922,8 milljónir króna að nafnvirði. Félagið hefur þegar nýtt sér
fjórðung þessarar heimildar og stjórn félagsins mun taka ákvarðanir um
framhaldið.

Félagið hefur keypt fyrirtæki í sömu eða skyldum greinum þar sem
augsýnilega er um að ræða álitleg samlegðartækifæri og möguleikar til að
færa út núverandi starfsemi félagsins. Af því tagi eru kaup Flugleiða á
fraktflugfélaginu Bláfugli og Flugflutningum hf. í febrúar 2005.

Hins vegar er um að ræða kaup eða fjárfestingar þar sem félagið hefur nýtt
sér þekkingu, einkum á sviði flutningastarfsemi og nýtt
fjárfestingatækifæri á markaði. Meðal þessara fjárfestinga eru kaup og
sala á hlutum í Burðarási vorið 2004 og kaup á liðlega 10% hlut í breska
lággjaldaflugfélaginu easyJet haustið 2004.

Alþjóðleg flugvélaleiga er enn einn nýr þáttur í starfsemi Flugleiða.
Félagið hefur þegar keypt þrjár Boeing 737-500 flugvélar í félagi við
íslenska og erlenda fjárfesta og leigt áfram. Þá hafa verið undirritaðir
samningar við Boeing flugvélaverksmiðjurnar um kaup á 10 Boeing 737-800
flugvélum, sem verða afhentar félaginu árið 2006 og stefnt er að því að
leigja til flugfélaga í Kína og víðar.

Rekstur í dótturfélögum

Hefðbundin starfsemi Flugleiða í flugflutningum, flugþjónustu og
ferðaþjónustu, fer fram í dótturfélögum samstæðunnar. Afkoma af rekstri
dótturfélaga á árinu 2004 var í heild í takt við arðsemismarkmið félagsins,
sem byggð eru á því fjármagni sem bundið er í starfseminni. Afkoman er hins vegar töluvert breytileg frá einu félagi til annars sem endurspeglar
mismunandi rekstrarumhverfi. Þegar horft er til rekstrar í dótturfélögum
samstæðunnar hefur afkoman aðeins einu sinni áður verið betri, en eins og
fyrr segir hefur afkoman aldrei verið betri þegar horft er til
heildarstarfseminnar.