Rekstrartekjur Birtíngs námu 249 milljónum króna árið 2006, frá september til desember. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) var 14 milljónir króna. Hagnaður að teknu tilliti til afskrifta og skatta var 8 milljónir króna segir í frétt félagsins.

Birtíngur útgáfufélag ehf. hóf útgáfustarfsemi sína þann 1. september 2006 þegar félagið keypti útgáfurétt allra tímarita Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf., sem í kjölfarið á þeirri sölu var sett í gjaldþrot. Með þeim tímaritum sem Birtíngur tók við kom sterk markaðsstaða sem styrktist enn frekar í lok árs með kaupum Birtíngs á Útgáfufélaginu Fögrudyr ehf.

Ársreikningur Birtíngs útgáfufélags ehf. fyrir árið 2006 var lagður fram og staðfestur af stjórn og framkvæmdastjóra félagsins á stjórnarfundi í dag. Reikningurinn er yfirfarinn og áritaður af endurskoðendum félagsins.


Birtíngur flutti starfsemi sína í nóvember frá Höfðabakka 9 á Lyngháls 5 og er nú öll starfsemi félagsins undir einu þaki.

Tímaritin Nýtt Líf, Séð & heyrt, Mannlíf, Gestgjafinn, Hús & Híbýli og Vikan hafa um árabil skapað sér sérstöðu á markaði hvað varðar vinsældir og sölu. Tímarit útgáfufélagsins Fögrudyra. ehf., Ísafold, hefur verið að ná fótfestu og náð að skapa sér sérstöðu sem lífsstílstímarit á markaðnum, en fyrir samrunann höfðu einungis þrjú tölublöð tímaritsins verið gefin út. Þá má geta þess að Birtíngur útgáfufélag hóf nú í lok febrúar útgáfu á Sögunni allri, tímarit um Íslands- og mannkynssöguna.


"Saga tímaritaútgáfu á Íslandi undanfarin ár hefur verið vörðuð erfiðleikum og gjaldþrotum og því afar ánægjulegt að Birtingur útgáfufélag skuli sýna hagnað strax á fyrsta starfsári," segir í tilkynningunni.