*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 7. febrúar 2006 09:42

Hagnaður á hlut minnkar hjá Össuri

salan jókst um 29% í Bandaríkjadölum

Ritstjórn

Hagnaður Össurar, án gjaldfærðra óvenjulegra liða, var 15,6 milljónir dala, 978 milljónir íslenskra króna. Að meðtöldum óvenjulegum liðum nam hagnaður ársins 11,7 milljónum dala, 734,7 milljónum íslenskra króna að því er kemur fram í fréttatilkynningu þeirra.

Hagnaður á hlut (EPS), án óvenjulegra liða var 4,70 bandarísk sent samanborið við 4,80 sent á hlut árið 2004. Hagnaður á hlut að meðtöldum óvenjulegum liðum var 3,53 bandarísk sent.

Sala ársins nam 160,7 milljónum Bandaríkjadala (10,1 milljarði íslenskra króna) samanborið við 124,4 milljónir á fyrra ári.

Sala jókst um 29% í Bandaríkjadölum.

Á árinu eru gjaldfærðar 6,7 milljónir Bandaríkjadala vegna einskiptiskostnaðar í tengslum við fyrirtækjakaup.

Ársreikningur 2005 fyrir félagssamstæðu Össurar hf. var samþykktur á stjórnarfundi 6. febrúar. Ársreikningurinn, sem gerður er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-International Financial Reporting Standards), hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins og áritaður án athugasemda.

Rekstur Össurar á árinu var farsæll og einkenndist af mikilli sókn með tilheyrandi aukningu á umsvifum. Innri vöxtur sölu var 9% á árinu og í lok árs fór fjöldi starfsmanna yfir 1.000.