Tekjur Actavis Group rúmlega tvöfölduðust á árinu 2006 og námu 1.379 milljónum evra (121 milljarði króna) og EBITDA framlegðarstig nam 20,8%. Undirliggjandi hagnaður samstæðunnar nam 148,8 milljónum evra (13 milljörðum króna) á árinu 2006 og 38,8 milljónum (3,4 milljörðum króna) á fjórða ársfjórðungi sem er um 70% aukning frá fyrra ári að því er kemur fram í tilkynningu félagsins.

?Það er ánægjulegt að sjá góðan árangur félagsins á árinu og að metnaðarfull rekstrarmarkmið um framlegð og hagnað hafi náðst. Þá var undirliggjandi rekstur félagsins góður og mikill vöxtur var á mörkuðum okkar í Bandaríkjunum og Mið- og Austur-Evrópu. Auk þess styrktum við samkeppnistöðu okkar enn frekar með kaupum á fjórum nýjum félögum, sem munu styðja við sölustarfsemi okkar og þróunarstarf, og gera okkur kleift að ná aukinni hagræðingu í rekstri á næstu árum," segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis, um uppgjörið.

Alls voru markaðssett 113 samheitalyf á hina ýmsu markaði samstæðunnar í fjórðungnum og samtals 376 á árinu öllu.