Hagnaður Actavis Group eftir skatta á öðrum ársfjórðungi dróst saman um 2,8% miðað við sama tímabil í fyrra þrátt fyrir 42,4% tekjuaukningu milli ára og 34% aukningu hagnaðar fyrir afskriftir og fjármagnsliði.

Á öðrum ársfjórðungi jókst sala félagsins um 42,4% og nam hún 109 milljónum evra. Innri vöxtur sölu á eigin vörumerkjum nam 6,8% og innri vöxtur sölu til þriðja aðila 22,2%.

Hagnaður fyrir vexti, afskriftir og skatta jókst um 34,2% og nam 26,3 milljónum evra. Hagnaðurinn sem hlutfall af rekstrartekjum nam 24,2% sem er lækkun frá öðrum ársfjórðungi 2003 er hún var 25,7%. Helsta skýringin á lækkun milli fjórðunga er kostnaður vegna breytingar á nafni félagsins í maí síðastliðnum. Hann nam 3 milljónum evra og er gjaldfærður að fullu á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eigin fjár á öðrum ársfjórðungi nam 25,7% samanborið við 26,5% á síðasta ári.

Hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins fyrir skatta nam 44 milljónum evra og jókst um 21% milli ára. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 34 milljónum evra og jókst um 9,2% milli ára. Tekjur félagsins jukust um 46% milli ára og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 43%. Ástæðan fyrir hlutfallslega minni aukningu hagnaðar eftir skatta en tekjum og EBITDA skýrist m.a. af því að verulegur gengishagnaður var á árinu 2003 í stað gengistaps á fyrstu sex mánuðum ársins 2004 auk þess sem að virkt skatthlutfall hækkar töluvert milli ára.