FL GROUP skilaði 25 miljóna króna hagnaði fyrstu þrjá mánuði ársins, sem er um 880 milljónum króna betri afkoma en á sama tímabili 2004. Þetta er næst besta afkoma af starfsemi félagsins á þessum árstíma frá upphafi.

Starfsemin á fyrsta ársfjórðungi einkennist af miklum hagnaði af fjárfestingastarfsemi, sem var grundvöllur bættrar afkomu á tímabilinu. Mikil flugvélaviðskipti settu svip á starfsemi félagsins og einnig uppbygging og undirbúningur fyrir 20% vöxt í leiðakerfi Icelandair á komandi sumri.

Velta félagsins jókst um 7,4% milli ára á fyrsta ársfjórðungi og rekstrartekjur voru liðlega 7,8 milljarðar króna. Hagnaður fyrir skatta varð 27 milljónir króna en var á sama tímabili í fyrra tap að fjárhæð einn milljarður króna.

Rekstur samstæðunnar er nú í fyrsta sinn gerður upp í samræmi við nýja alþjóðlega reikningsskilastaðla. Samanburðartölur frá 2004 hafa verið uppfærðar í samræmi við staðalinn til að gefa skýrari samanburð milli ára.

Miklar breytingar urðu á efnahagsreikningi FL GROUP fyrstu þrjá mánuði ársins, sem að mestu má rekja til af fjárfestingastarfsemi félagsins og árangurs af henni. Eignir félagsins 31. mars námu 61 milljarði króna og höfðu aukist um 18 milljarða króna frá áramótum eða um 42%. Af þessum 18 milljörðum eru um 9,2 milljarðar til komnir vegna flugvélakaupa og fyrirframgreiðslu inná nýjar flugvélar sem verða afhentar á næsta ári. Í lok ársfjórðungsins var handbært fé og markaðsverðbréf að fjárhæð 22 milljarðar króna. Að hluta er vöxtur í efnahagsreikningi FL GROUP tímabundinn því markmið félagsins er að fjármagna flugvélaviðskipti tengd leigustarfsemi utan efnahagsreiknings.

Um 1,8 milljarða króna hagnaður varð af fjárfestingastarfsemi FL GROUP á fyrsta ársfjórðungi. Hlutabréf í easyJet voru á genginu 214 í lok mars, en síðan hefur gengi bréfanna haldið áfram að hækka og var 238 í lok dags 24. maí. Óinnleystur viðbótarhagnaður af bréfunum frá 31.mars til dagsins í dag er því 1,2 milljarðar króna.

Annar mikilvægur þáttur í fjárfestingastarfsemi FL GROUP eru flugvélaviðskipti og flugvélaleiga. Félagið hefur frá því þessi starfsemi hófst rétt fyrir síðustu áramót ýmist pantað, keypt eða tekið þátt í kaupum á 23 flugvélum. Áhrif af þessum viðskiptum eru ekki enn komin fram í rekstrarreikningi félagsins að neinu marki, en sjást glöggt í efnahagsreikningi eins og að framan segir.