Hagnaður af rekstri samstæðu Landsvirkjunar nam 3,5 milljörðum króna á árinu 2006 og dróst saman um 2,8 milljarða, samanborið við hagnað á árinu 2005. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar íslanda.

Landsvirkjun segir rekstrarhorfur þó góðar fyrir árið 2007. " Fljótsdalsstöð verður tekin í notkun á árinu og munu tekjur af raforkusölu til stóriðju auka heildartekjur fyrirtækisins umtalsvert. Gengisþróun mun þó eftir sem áður ráða miklu um afkomu ársins," segir í tilkynningunni.

Fyrirtækið segir að þessu ári verði aukin áherlsa lögð útrás og hefur í því skyni stofnað sérstakt dótturfélag, Landsvirkjun Invest ehf. Gert er ráð fyrir að hlutafé fyrirtækisins verði fjórir milljarðar króna.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar jukust í 21,3 milljarða á árinu 2006 úr 15,6 milljörðum árið 2005. Fyrirtækið segir aukningu rekstrartekn sé að verulegu leyti vegna hækkunar á orkuverði til stóriðju. Rekstrarkostnaður án afskrifta nam 6,4 milljörðum en var tæpir sex milljarðar árið áður.

Í árslok námu heildareignir fyrirtækisins 243,2 milljörðum króna og var eiginfjárhlutfall 25,1%.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 26 milljörðum króna, sem skýrist aðallega af gengistapi af langtímalánum. Gengistapið er að mestu leyti óinnleyst og verður að hafa það í huga við mat á afkomu fyrirtækisins, segir í tilkynningunni. Gengistap langtímalána skýrist aðallega af lækkun á gengi íslensku krónunnar á árinu. Meðalnafnvextir langtímalána voru um 4,6% á árinu 2006 en þeir voru um 3,5% árið áður. Í árslok 2006 voru 82% langtímalána í erlendri mynt.

Raforkufyrirtæki hafa verið undanþegin tekjuskatti en í samræmi við lög nr. 50 frá árinu 2005 urðu fyrirtækin skattskyld frá og með 1. janúar 2006. Reiknuð skatteign Landsvirkjunar hefur verið tekjufærð í ársreikningnum og nemur hún 19.862 milljónum króna í árslok 2006.

Á árinu 2003 hófust virkjunarframkvæmdir við Kárahjnúka í framhaldi af gerð orkusölusamnings við Fjarðaál, dótturfélag Alcoa. Þar verður reist 690 MW aflstöð og jafnframt lagðar flutningslínur til Reyðarfjarðar. Stefnt er að því að fyrsta vél virkjunarinnar af sex verði gangsett í júlí 2007.

Í árslok 2006 nam byggingarkostnaður Kárahnjúkavirkjunar samtals 88,8 milljörðum króna, þar af var framkvæmt fyrir 33,4 milljarða á árinu. Byggingakostnaður flutningsvirkja nam 9,1 milljörðum króna.