Bandaríski álrisinn Alcoa hefur framlengt 27,93 milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboð sitt í Alcan fram til 10. ágúst næstkomandi og veitir þar með samkeppnisyfirvöldum og hluthöfum kanadíska álfélagsins meiri tíma til að fara yfir tilboðið, sem helst óbreytt frá því sem Alcoa lagði fram 7. maí síðastliðinn. Þrátt fyrir það þá fer sá orðrómur vaxandi á degi hverjum að von sé á hærra tilboði frá Alcoa innan skamms.

Alcoa, sem er annað stærsta álfélag heims á eftir rússneska fyrirtækinu Rusal, greindi jafnframt frá því á mánudaginn að hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi hefði dregist saman um 3,9% og numið samtals 715 milljónum dala. Afkoman var í takt við það sem helstu greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Í tilkynningu frá Alcoa eru helstu ástæðurnar fyrir minni hagnaði fyrirtækisins sagðar vera hækkandi olíuverð og eilítið lægra álverð á heimsmarkaði. Sumir sérfræðingar hafa bent á að þetta muni - ef eitthvað er - auka líkurnar á því að Alcoa taki ákvörðun um að hækka yfirtökutilboð sitt í Alcan.

Margir bíða hins vegar enn eftir því að námufyrirtækin Rio Tinto og BHP Billition - og jafnvel brasílíska félagið CVRD - blandi sér í slaginn um kanadíska álfélagið. Í frétt bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal í gær segir að sumir sérfræðingar um áliðnaðinn telji að í ljósi þess að slík barátta geti leitt til verðstríðs þá sé líklegast að Rio Tinto muni halda að sér höndum af fyrirtækjunum þremur. Forsvarsmenn Alcan og Rio Tinto hafa ítrekað neitað að tjá sig opinberlega um þær sögusagnir að félögin eigi um þessar mundir í viðræðum sem miði að því að ná samkomulagi um sameiningu fyrirtækjanna.