Afkomutölur álrisans Alcoa voru birtar í gær og nam hagnaður félagsins $404 milljónum á öðrum ársfjórðungi og jókst um 87% miðað við sama fjórðung 2003. Tekjur félagsins á fjórðungnum námu $6,1 milljarði og jukust um tæp 11% frá fyrra ári. Fyrirtækið náði að skera niður kostnað um $13 milljónir, en það ásamt hærra álverði og meiri eftirspurn urðu til þess að afkoman á öðrum ársfjórðungi var mjög góð. Aukin eftirspurn kom aðallega til vegna mikils vaxtar á mörkuðum í N-Ameríku og Asíu. Hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nemur þá $759 milljónum sem er sá mesti á fyrri árshelmingi í sögu Alcoa. Þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans í gær.

Í afkomutilkynningunni frá Alcoa segir að félagið sé sífellt að leita að hagstæðum tækifærum út um allan heim til að auka enn við forystu sína í álframleiðslu. Greint er frá hagstæðum samningum sem félagið hefur gert bæði í Trinidad og Brasilíu. Einnig er komið inn á áform félagsins í Reyðarfirði, en fram kemur að bygging álverksmiðjunnar hefjist síðar í vikunni og að framleiðsla muni hefjast árið 2007 sem er í takt við áætlanir.

Markaðurinn hafði mjög miklar væntingar til uppgjörsins og hljóðuðu meðalafkomuspár upp á 48 sent á hlut. Niðurstaðan varð 46 sent á hlut og brást markaðurinn neikvætt við afkomutilkynningunni. Hlutabréf félagsins lækkuðu í gær í viðskiptum eftir lokun markaða (after-hours trading).