Hagnaður bandaríska álfyrirtækisins Alcoa á síðasta fjórðungi ársins 2004 nam 268 milljónum dala en var 291 milljón dala á sama tíma árið á undan. Dróst hagnaður því saman um 9,2%. Þetta varð niðurstaðan þrátt fyrir að eftirspurn eftir áli hafi aukist á tímabilinu og verð á áli hafi verið hátt. Var ástæða fyrir verri afkomu einkum sú að fyrirtækið seldi starfsemi sem tengist ekki kjarnarekstri. Þegar sölutap vegna fyrirtækjasölu var undanskilið nam hagnaðurinn 345 milljónum dala.

Tekjur Alcoa námu rúmum sex milljörðum dala á ársfjórðungnum og jukust um 12% milli ára. Allt árið í fyrra var hagnaður af rekstri fyrirtækisins upp á 1,3 milljarða dala eða um 82 milljarða íslenskra króna og jókst um 39,7% frá árinu 2003. Sölutekjur námu 23,5 milljörðum dala, jukust um 11% og hafa aldrei verið meiri. Gengi bréfa fyrirtækisins lækkaði um 22 sent á markaði í New York á mánudag áður en árshlutauppgjörið var birt og var lokagengið 30,47 dalir. Alcoa er með rekstur í 41 landi, þar á meðal Íslandi, en fyrirtækið er eins og flestir landsmenn vita að reisa álver í Reyðarfirði.