Heildartekjur tryggingafélagsins Allianz jukust um 11,4% prósent á þriðja ársfjóðrungi samanborið við sama tímabil í fyrra. Tekjur voru alls 24,5 milljarðar evra á tímabilinu.

Heildartekjur á fyrstu níu mánuðum ársins námu 80,5 milljörðum evra sem er 11,9% hærra en á fyrstu níu mánuðum ársins 2009.

Michael Diekmann, forstjóri Allianz, segir í tilkynningu um afkomu félagsins að í kjölfar sterks þriðja ársfjóðrungs búist félagið við að hagnaður af rekstri verði um 7,2 milljarðar evra. Það er við hærri mörk hagnaðarmarkmiðs ársins. Þá segir hann að líklegt sé að heildartekjur verði yfir 100 milljörðum evra, í fyrsta sinn frá árinu 2005.