Stærsta tryggingarfyrirtæki Evrópu, Allianz, tilkynnti í gær að hagnaður félagsins á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hefði hækkað um 82% frá því á sama tímabili fyrir ári. Þessi mikla hagnaðaraukning er einkum tilkomin vegna stöðugs vaxtar í rekstrartekjum en þær hækkuðu um 7% á tímabilinu, upp í 2,87 milljarða evra sem var nokkuð yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu spáð rekstrartekjum upp á 2,66 milljarða evra. Rekstrartekjur af Dresdner Bank einingu Allianz hækkuðu einnig meira en búist hafði verið við, eða um 28%, og numu samtals 677 milljónum evra.