Hagnaður dönsku fyrirtækjasamsteypunnar A.P. Møller-Mærsk dróst saman um 28% á milli ára í fyrra. Hagnaðurinn nam 233 milljörðum íslenskra króna árið 2005 en árið áður nam hann 325,5 milljörðum íslenskra króna, segir greiningardeild Landsbankans.

Gengi hlutabréfa A.P. Møller-Mærsk lækkaði um 17% á hádegi Kauphöllinni í Kaupmannahöfn í kjölfar birtingar uppgjörsins en lækkunin gekk að hluta til baka. Lækkun dagsins nam 12,9% í viðskiptum dagsins.

Þessi mikli samdráttur er tilkominn vegna stóraukins kostnaðar og rangra fjárfestingaákvarðanna. Afkoman er mikið verri en markaðsaðilar og áttu von á.

Forsvarsmenn A.P. Møller-Mærsk sögðu einnig að hagnaður á yfirstandandi rekstrarári yrði líklega um 16% lægri en hann var í fyrra sökum mikils samdráttar í flutningatekjum.

Þessi yfirlýsing kom markaðsaðilum mikið á óvart, þar sem væntingar voru til að kaup félagsins á P&O Nedlloyds myndu skila sér í auknum tekjum.

Danski markaðurinn lækkaði einnig töluvert í dag, en A.P. Moeller-Maersk vegur um 1/3 af úrvalsvísitölunni C20. Vísitalan lækkaði um 4,1% í viðskiptum dagsins.