Hlutabréf í tölvufyrirtækinu Apple hækkuðu um ríflega sjö prósent á mörkuðum í gær og fór gengið yfir hundrað Bandaríkjadali í kjölfar þess að tilkynnt var um að hagnaður hafi aukist um 88% á öðrum ársfjórðungi. Þessi gríðarlegi mikli vöxtur er rakinn til mikillar sölu á iPod-tónhlöðum og á Macintosh-tölvum. Tæplega ellefu milljónir tónhlaða voru seldar á tímabilinu og á sama tíma seldust 1,5 milljónir Machintosh tölva. Sérfræðingar höfðu spáð að hagnaður á hlut myndi verða 64 sent en niðurstaðan var 87 sent á hlut, sem er helmingi meira en á sama tíma í fyrra.