Hagnaður bandaríska tölvurisans Apple jókst um 26% á þriðja ársfjórðungi sem er nokkuð umfram væntingar greiningaraðila að sögn Reuters fréttastofunnar.

Þannig nam hagnaður Apple á þriðjaársfjórðungi 1,14 milljörðum Bandaríkjadala sem gerir 1,26 dal á hvern hlut samanborið við 904 milljóna dala hagnað á sama tíma í fyrra eða 1 dal á hvern hlut.

Að sögn Reuters gerðu greiningaraðilar ráð fyrir hagnaði upp á 1,11 dali á hvern hlut.

Tekjur félagsins jukust um 27% á ársfjórðungnum og voru tæpar 8 milljónir dala. Mikil tekjuaukning Apple má rekja til hins vinsæla iPhone síma sem selst hefur eins og heitar lummur.

Að sögn Apple seldust tæplega 6,9 milljón iPhone símar á þriðja ársfjórðungi.

Í uppgjörstilkynningu Apple kemur fram að búist er við auknum hagnaði á fjórða ársfjórðungi sem helst má rekja til sölu iPhone.