Hagnaður Arion banka samkvæmt árshlutareikningi fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2010 nam 7,9 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 17,7% á ársgrundvelli.

Í tilkynningu frá Arion banka segir að yfirtaka Kaupskila á 87% hlut í bankanum í janúar síðastliðnum hafi styrkt eiginfjárstöðu bankans. Kaupþing lagði bankanum til nýtt eigið fé ásamt því að ríkið veitti bankanum víkjandi lán upp á 29 milljarða króna.

Þann 30. júní 2010 var eiginfjárhlutfall bankans 16,4% en krafa fjármálaeftirlits er 16%. Í tilkynningunni segir að Arion banki standist mjög rúmlega allar lausafjárkröfur eftirlitsaðila.

Útlán aukast og innlán standa í stað

Útlán til viðskiptavina jukust frá áramótum og námu 466,0 milljörðum króna þann 30. júní samanborið við 357,7 milljarða króna í árslok 2009. Segir að aukningin sé einkum komin til vegna nýrra útlána sem bankinn fékk í tengslum við eigendabreytingar.

Staða innlána lækkaði lítillega og námu 493,4 milljörðum króna samanborið við 495,5 milljarða króna í árslok 2009.

Heildareignir aukast

Heildareignir bankans námu 842,3 milljörðum króna í lok tímabilsins samanborið við 757,3 milljarða króna í lok síðasta árs. Segir að breytingar á eignum megi rekja til yfirtöku Kaupskila á 87% hlut í bankanum. Við það jukust heildareignir Arion banka um 80,2 milljarða króna. Þá óx lánabók bankans um 112,8 milljarða króna en skuldabréfaeign lækkaði um 32,6 milljarða króna þar sem ríkið fékk 87% af hlut sínum endurgreiddan til baka.

Eigið fé bankans í lok júní var 101,4 milljarðar króna en nam 89,9 milljörðum króna í árslok 2009.

Í takti við væntingar

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir í tilkynningu að uppgjörið sé í takt við væntingar. „Uppgjörið fyrir fyrstu sex mánuði ársins er í takt við væntingar og sýnir vaxandi fjárhagslegan styrk bankans. En hið efnahagslega umhverfi er og verður krefjandi og þá ekki síst vegna þeirrar óvissu sem ríkir vegna erlendra lána. Bankinn hefur farið ítarlega yfir hugsanleg áhrif þeirra á efnahag bankans og mun bankinn í öllum tilfellum uppfylla kröfu laganna um 8% eiginfjárhlutfall fjármálastofnanna.“