Færeyska flugfélagið Atlantic Airways [ FO-AIR ], sem skráð er í Kauphöll Íslands hagnaðist um 6 milljónir danskra króna (um 98 milljónir ísl.kr.) á öðrum ársfjórðungi samanborið við 17 milljóna danskra króna hagnað á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.

Þá var hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins um 246 þúsund danskra króna (um 4 milljónir ísl.króna) samanborið við hagnað upp á 12,5 milljónir danskra króna á sama tíma í fyrra.

„Hækkandi olíuverð, hækkandi afskriftir og lækkandi gengi hlutabréfa hafa mikil áhrif á hagnað félagsins á fyrri helmingi ársins 2008 samanborið við fyrri helmings ársins 2007, sem var einstaklega góður,“ segir í tilkynningu félagsins.

Þá kemur fram að eldsneytiskostnaður á áætlunarleiðum félagsins hefur aukist um allt að 11 milljónir danskra króna milli ára á fyrri helmingi þessa árs.

Þá hafði bókfært gengi félagsins nokkur áhrif á hagnað þess á fyrri helmingi ársins í fyrra eða um 5 milljónir danskra króna á meðan tapið í sama flokki er 1,6 milljónir danskra króna í ár.

Síðastliðið haust bættust tvær flugvélar og ein þyrla við flota félagsins.

„Það hefur margt komið upp á síðustu sex mánuðum og við erum sáttir við þennan hóflega hagnað á fyrri helmingi ársins,“ segir Magni Arge, forstjóri Atlantic Airways í tilkynningunni.