Hagnaður Atorku eftir skatta var 1.491 milljónir króna á síðasta ári. Eigið fé í upphafi ársins var 8.969 milljónir króna en 9.744 milljónir króna í lok þess. Heildareignir félagsins í upphafi árs voru 16.842 milljónir króna en 20.000 milljónir króna í lok þess. Arðsemi eigin fjár var því 16,6% segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi var 1.044 milljónir króna fyrir skatta.

Fjárfestingar Atorku Group hf. felast í áhrifafjárfestingum.

"Afkoman var góð á síðasta ársfjórðungi." segir Magnús Jónsson forstjóri Atorku Group hf. í tilkynningu félagsins. ?Árangur af fyrirtækjaverkefnum hefur enn ekki verið færður til bókar vegna þess að Atorka gerir ekki samstæðu- eða hlutdeildaruppgjör fyrir þau. Þar af leiðandi kemur rekstur fyrirtækjanna ekki inn í uppgjör Atorku. Eignarhlutir Atorku í félögum sem tengjast fyrirtækjaverkefnum eru ýmist færðir á kostnaðarverði eða sannverði, eftir því hvort er lægra.

"Það hefur verið mikil uppbygging og vöxtur á árinu 2005 í fyrirtækjaverkefnum sem tengjast félögum sem ekki eru á markaði. Hagnaður af þeim kemur hins vegar ekki fram í reikningsskilum Atorku fyrr en við sölu félaga að hluta eða í heilu lagi. Fjárfestingastefnan er skýr og meiri áhersla er lögð á fyrirtækjaverkefni og er markmið okkar að taka þátt í hverju fyrirtækjaverkefni í 3-5 ár að jafnaði," segir Magnús.

Aukinn fjárhagslegur styrkur og áframhaldandi sókn - framtíðarhorfur

Atorka jók hlutafé sitt um 600 milljónir króna að nafnverði á genginu 6,0 í ársbyrjun 2006, eða um 3,6 milljarða króna. Af því leiðir að fjárhagslegur styrkur félagsins er nú orðinn verulega meiri heldur en ársreikningur 2005 sýnir. Atorka mun nýta þann styrk til frekari uppbyggingar og vaxtar.

Horfur 2006

Velta félaga að fullu í eigu Atorku á árinu 2006 er áætluð rúmir 30 milljarðar og áætluð EBITDA þeirra tæpir þrír milljarðar króna.

Áætluð heildarvelta þeirra fyrirtækja sem Atorka er kjölfestufjárfestir í árið 2006 er rúmir 80 milljarðar króna og er heildar starfsmannafjöldi þessara fyrirtækja um 4.500.